Akranes: Tímabundinn heimavöllur

Í kjölfar fréttaflutnings í vikunni um aðstöðuleysi Aþenu fyrir lið meistaraflokks kvenna hafa nokkur bæjarfélög utan höfuðborgarsvæðisins sett sig í samband við forsvarsmenn Aþenu og boðið liðinu aðstöðu til keppni. Forsvarsmenn og iðkendur Aþenu vilja koma á framfæri þakklæti fyrir allan stuðninginn.

Undanfarin tvö ár hafa allir flokkar Aþenu æft og spilað sína heimaleiki á Kjalarnesi, en íþróttamiðstöðin þar uppfyllir ekki kröfur til keppni í meistaraflokkum. Eftir að Íþróttabandalag Reykjavíkur tilkynnti að ekki fyndist heimavöllur í íþróttahúsi á höfuðborgarsvæðinu var ekki annað í stöðunni fyrir félagið en að leita á náðir nágrannasveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er bagalegt fyrir meistaraflokk kvenna að ómögulegt hafi reynst að finna lausan tíma í löglegum keppnishúsum í Reykjavík klukkan 17 á laugardagskvöldum. Aþena bindur enn vonir við, að í samstarfi við Íþróttabandalag Reykjavíkur finnist fljótlega framtíðarlausn á aðstöðuleysi félagsins. Það veikir samkeppnisstöðu liðsins að stuðningsfólk þurfi að ferðast langan veg til að hvetja liðið áfram á heimaleikjum.

Aþena þáði boð Akraness, vegna staðsetningar og persónulegra tengsla, og mun keppa sína heimaleiki í meistaraflokki kvenna í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Þrátt fyrir öflugt og fjölmennt íþróttastarf á Akranesi reyndist auðsótt að lána Aþenu tíma á laugardagskvöldum enda hafa yngri flokkar ÍA lokið sínum æfingum á þeim tíma.

Aþena þakkar Akraneskaupstað fyrir velvild og að hlaupa undir bagga í þessu máli.