VÍSIR: “Segja KKÍ vilja þagga kynbundið ofbeldi”

Myndbandið “KKI – SEXUAL HARASSMENT AND VIOLENCE” var birt á facebook síðu Aþenu í vikunni, Vísir fjallar um málið:

Aþena íþróttafélag krefst aðgerða af hálfu Körfuknattleikssambands Íslands. Forráðamenn félagsins telja stöðuna óásættanlega og stúlkur ekki öruggar innan vébanda sambandsins vegna óuppgerðra mála og aðgerðarleysis varðandi kynbundið ofbeldi.

Aþena hefur sent frá sér ítarlega og afdráttarlausa yfirlýsingu um málið, sem finna má í heild sinni hér neðar og jafnframt gert og gefið út myndband þar sem farið er í saumana á því sem þau innan vébanda Aþenu telja ófremdarástand.

„Við teljum afar óábyrgt að í fyrsta lagi vara foreldra iðkenda ekki við því að þjálfarar með meinta sögu um að hafa áreitt ungar landsliðskonur kynferðislega séu enn í þjálfarahóp yngri landsliða,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir jafnframt að forgangsmál sé að tryggja öryggi og réttindi leikmanna: „Foreldrar, stúlkur og konur verða að geta treyst því að fá að stunda sína íþrótt án þess að vera áreittar kynferðislega. Þær verða að geta treyst því að það sé sýnt í verki að kynferðislegt ofbeldi sé ekki liðið jafnvel þó öll landslið yrðu skyndilega þjálfaralaus um tíma ef öll mál væru tilkynnt til KKÍ.“ Jóhanna Jakobsdóttir formaður Aþenu skrifar undir yfirlýsinguna sem hlýtur að teljast verulega harðorð.

 

Fréttina í heild sinni má finna hér: https://www.visir.is/g/20222223072d?fbclid=IwAR3XJsn7ioJHfVnt60i_C-cRpuHzmSGt5w-xCAwk6vlqYnrJHOvosTsPeZ0