Valdefling stúlkna og sjálfstyrking

Þöggun og yfirhylming yfir kynferðisbrotum og kynferðisáreiti er landlæg í íslenskum íþróttum. Fyrr í vetur var vefsíðan Síðasta Sagan www.sidastasagan.com sett í loftið. Hún var gerð að frumkvæði þjálfara Aþenu en Margrét Björg Ástvaldsdóttir félagsfræðingur veitti verkefninu forystu.

Hugmyndin varð til eftir að aðstandendur Aþenu ákváðu að taka upp reynslusögur kvenna í íþróttum af ofbeldi, áreiti og lítilsvirðingu. Það var sláandi, að af fyrstu 50 viðmælendum voru aðeins tvær konur tilbúnar að stíga fram og koma í viðtal fyrir framan myndavélar. Af þeim sökum var verkefninu breytt frá því að vera myndskeið í nafnlausar sögur á vefsíðu. Margar kvennanna treystu sér ekki til að standa undir sögunum á meðan að þær væru enþá virkar innan íþrótta. En aðrar sögust hafa slæma reynslu af því að tjá sig um mál sín innan félaganna þar sem þær stunduðu sína íþrótt. Það er með ólíkindum hversu öflugur verndarhjúpur er lagður yfir þjálfara, stjórnarfólk, leikmenn sem brjóta af sér í starfi. Oftar en ekki þegar upp kemst um brot eða óviðeigandi hegðun byrjar yfirklórið, viðkomandi hverfur á brott frá félaginu en sprettur jafn harðan upp hjá öðru félagi eða jafnvel sérsambandi íþróttarinnar.

Rifjum upp viðbrögð íþróttahreyfingarinnar þegar 12 og 13 ára körfuboltastúlkur neituðu að taka við verðlaunum frá KKÍ til að mótmæla því að vera hent út úr drengjamótum sem þær höfðu spilað í í tvo ár með góðum árangari án nokkurra skýringa eða haldbærra raka. Þá reis íþróttahreyfingin upp á afturfæturnar og fordæmdi verknaðinn og sá ástæðu til að líta málið alvarlegum augum. En hreyfingunni virðist vera fyrirmunað að eiga frumkvæðið að því að líta sér nær og taka á sínum málum. En á meðan of margir stjórnendur, starfsmenn eða þjálfarar eru með of mikið óhreint mjöl í pokahorninu mun ekkert gerast. 

Öflugar íþróttakonur verða þá aldar upp í sem annars flokks íþróttakonur og í vanmætti og ofbeldi sem þær læra innan hreyfingarinnar. Valdefling stúlkna og sjálfstyrking innan íþróttafélaga er stór hluti í því átaki sem framundan er. 

 

Brynjar Karl yfirþjálfari Aþenu