Kosið um það hvort stelpna- og strákalið geti mæst
Lögð verður fram tillaga að stúlknalið og strákalið í körfubolta geti spilað í sama flokki á Íslandsmóti til 14 ára aldurs af UMFK – Aþenu. Fyrir tveimur árum var sama tillaga lögð fram á ársþingi KKÍ. Þá kepptu stúlkurnar á vegum ÍR, en þegar kom að því að tala fyrir tillögunni var enginn frá ÍR sem talaði fyrir hugmyndinni.
Tillaga UMFK felur í sér að eftirfarandi verði bætt við reglu um flokkaskiptingu leikmanna:
Mótanefnd KKÍ getur leyft keppni liðs í Íslandsmóti sem er annaðhvort kynjablandað eða skipað leikmönnum af gagnstæðu kyni frá minnibolta 10 ára upp í 9. flokk.
Slíkt leyfi verður aðeins veitt ef félag sem óskar eftir að senda slíkt lið til keppni hefur sent inn rökstutt erindi til mótanefndar þar sem félagið hefur rökstutt með fullnægjandi hætti að mati mótanefndar að ástæða sé til að veita slíkt leyfi að teknu tilliti til meðal annars getu og/eða framþróunar liðs og/eða leikmanna sem sótt er um fyrir.
Ef sótt er um slíkt leyfi fyrir lið geta leikmenn þess almennt ekki keppt bæði í flokki karla og kvenna en þó er það mögulegt ef um er að ræða tilfærslu á einstökum leikmönnum á milli liða.
Blönduð lið eða lið af gagnstæðu kyni geta keppt á öllum mótum í tilteknum flokki nema í úrslitamótum þar sem endanlega er keppt um Íslandsmeistaratitil. Hafi slíkt lið áunnið sér sæti á slíku móti skal færa upp það lið sem næst kemur að stigum fyrir úrslitamót.
Leyfi mótanefndar samkvæmt framangreindu tekur ekki til keppni í Bikarkeppnum KKÍ.
Alla umfjöllunina má finna á visi.is