Er Brynjar Karl hálviti?
Handboltagoðsögnin Ólafur Stefánsson mætti í spjall hjá Sölva Tryggva þar sem Brynjar Karl, þjálfari Aþenu, barst á tal. Óli og Brynjar þekkjast vel og hafði Óli skemmtilegar sögur að segja frá þeirra vinnu saman:
„Binni er bara ,,Navy Seal” gaur. Hann bauð mér einu sinni upp í sumarbústað, korteri fyrir ólympíuleikana í London,“ segir Ólafur en þetta var árið 2012 og Ólafur á hátindi ferils síns í handboltanum.
„Ég hef aldrei verið í eins góðu formi. Svo segir hann, eigum við ekki að henda okkur í fjallgöngu. Svo byrjar hann í smá keppni og segir: „Gaur, eigum við ekki aðeins að flýta okkur?“ og ég svara bara játandi og eins og ég segi, var í formi lífs míns. Ég fer að reyna að halda í við hann, en hann bara skilur mig eftir. Ég neitaði að trúa því að þetta væri að gerast, ég á leiðinni á stórmót og hann skildi mig bara eftir. Þetta var óþægilegur sannleikur fyrir mig og sama gerði hann þegar ég var að byrja með fyrirtæki. Við fórum saman á Þingvelli og vorum og hann hraunaði yfir mig og sýndi mér að ég væri bara í „LaLa-landi“ með þessar hugmyndir mínar. Fyrsta varnarviðbragðið hjá manni er auðvitað að hugsa bara að maðurinn sé hálfviti og ég fór heim. Við ætluðum að gista saman nokkrar nætur, en ég þoldi bara einn sólarhring. Eftir á að hyggja var allt rétt sem hann sagði,” segir Ólafur, sem skilur vel að bíómyndin „Hækkum rána“ hafi valdið miklu umtali á Íslandi:
„Við erum ekki með West-Point á Íslandi að berjast við Rússa eða Kínverja allan daginn, þannig að við þekkjum ekki alveg að eiga við fólk sem er með „Navy-Seal“-nálganir á hlutina eins og Brynjar. Þannig að auðvitað bregður fólki að sjá svona mann þjálfa ungar stelpur. En Binni ver sig sjálfur og er alls ekki að mæla með að aðrir þjálfi eins og hann. En það er fólk eins og hann sem fær okkur til að hugsa og gagnrýna hlutina og velta upp einhverju sem hefur kannski bara legið í einhverjum drullupolli í lengri tíma.”