11 ára iðkendur UMFK/Aþenu fá ekki að taka þátt í Íslandsmóti

Í lok sumars stofnaði Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) körfuknattleiksdeild innan félagsins og hóf samstarf við íþróttafélagið Aþenu um körfuknattleiksþjálfun hjá félaginu. UMFK sótti um aðild að Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ) með það að markmið að gefa iðkendum sínum tækifæri á að taka þátt í Íslandsmótum á vegum sambandsins.

UMFK þjónar aðallega íbúum á Kjalarnesi og í Kjós. Fjöldi barna sem þar búa er ekki mikill og því ljóst að til að halda úti kröftugum æfingum og ná í körfuknattleikslið þurfi börn að æfa og keppa saman þvert á aldursflokka.

Til hliðsjónar af 15. grein reglugerðar KKÍ um körfuknattleiksmót þar sem segir að “Leikmaður má aldrei leika með yngri aldursflokki en honum ber. Öllum leikmönnum yngri aldursflokks er heimilt að leika hverju sinni með öllum aldursflokkum fyrir ofan sinn eigin” þá taldi UMFK að allir þeirra iðkendur fengju að sjálfsögðu tækifæri til að spreyta sig á Íslandsmótum KKÍ svo fremi að UMFK skráði aðeins lið til keppni í samræmi við aldur elsta leikmanns í liðinu.

Hingað til æfa aðeins tvö 11 ára börn körfuknattleik hjá UMFK/Aþenu og eitt lið í þessum aldursflokki skal skipað 4 leikmönnum ásamt allt að þremur varamönnum þá var liðið sem UMFK hugðist senda á Íslandsmót í minnibolta 11 ára skipað 2 leikmönnum á réttum aldri og 2 yngri leikmönnum ásamt 3 yngri varamönnum.

Samkvæmt vinnureglu KKÍ, sem hvergi er tilgreind í lögum né reglugerðum sambandsins og kemur einungis fram í tölvupóststilkynningu til aðildarfélaga KKÍ þar sem auglýst er að skráning á mótið sé hafin er tekið fram að ef “félög óska eftir að nota yngri iðkendur til að ná í lið þarf beiðni þar að lútandi að berast innan skráningarfrests”.

Beiðni UMFK til sambandsins um að fá að senda lið skipað 2 leikmönnum á réttum aldri, 2 yngri leikmönnum og 3 yngri varamönnum til að ná í lið var synjað á þeim forsendum, sem hvergi eru tilgreindar í lögum, reglugerðum, né upphaflegum tölvupósti sem auglýsti skráningu á mótið, að liðum hafi verið heimilað “að skrá yngri iðkendur til keppni í þeim tilfellum þar sem verið er að bæta við varamönnum, þannig að liðin séu að mestu byggð á leikmönnum á réttum aldri”.

KKÍ benti UMFK þann möguleika að senda lið sameiginlegt með öðru félagi. Eitt af markmiðum UMFK með samstarfi við Aþenu var einmitt að ná til stærri hóps fjölskyldna sem búa utan Kjalarness og þannig fjölga iðkendum á Kjalarnesi og miðar því markmiði vel. UMFK/Aþena telur best fyrir iðkendur sína að fá að keppa með sínum liðsfélögum undir stjórn sinna þjálfara enda eru iðkendur á þessum aldri farnir að læra töluverða leikfræði, eftirfylgni eftir keppni þar sem farið er yfir leikinn orðin meiri en áður, ásamt fleiru sem byggir á því að liðið sé sem mest saman sem ein heild. 

UMFK/Aþena bendir á að önnur íþróttafélög sendi allt að 4 lið til keppni í samræmi við fjölda iðkenda hjá félögunum og þannig fái allir iðkendur sem vilja tækifæri til að taka þátt jafnvel þó eitt lið megi mest vera skipað 7 leikmönnum.

Stjórn UMFK/Aþenu telur að synjun KKÍ samræmist ekki þeim lögum og reglugerðum sem sambandið hefur sett sér og óskar eftir því að sambandið endurskoði afstöðu sína fyrir 2. umferð Íslandsmóts og stuðli að þannig að jöfnum tækifærum allra til þátttöku í körfuknattleik.