
-
You can support Athena with a one-time donation charged to your credit card up on check-out
Stelpurnar okkar
Íþróttir eru stór hluti af menningu okkar. Við hvetjum börnin okkar til þess að stunda þær því það er almennt talið að íþróttir hafi mikilvægt forvarnar og uppeldislegt gildi. Hinni fallegu hugsjón er ætlað að auka líkamlegt og andlegt atgervi, stuðla að heilbrigði og jöfnum tækifærum fyrir bæði kynin.
Jafnréttislöggjöf var sett á Íslandi árið 1976 og náði til margra þátta þjóðfélagsins, þar með til íþróttahreyfingarinnar. Lög frá 2008 sem fjalla um jafna stöðu og rétt karla og kvenna hvetja til kynjasamþættingar. Þrátt fyrir þetta yfirlýsta markmið er ekki þar með sagt að því sé fylgt í orði og á borði.
Misrétti kynjanna á sér djúpar sögulegar rætur innan íþrótthreyfingarinnar og er mikið verk óunnið til þess að jafna tækifærin. Það er erfitt fyrir frjáls félagasamtök eins og íþróttafélög að stilla af sína stefnu svo öllum líki. Krafan á hin almennu íslensku félög er að þau eigi að vera allt fyrir alla en sjaldan hefur tekist svo vel til. Ísland er ekkert einsdæmi í þeim efnum. Á undanförnum árum hefur umræðan um bætta aðstöðu kvenna í íþróttum verið hávær um heim allan. Mörg íþróttafélög hafa náð góðum árangri í að auka virði kvenna, en betur má ef duga skal.
Íþróttafélagið Aþena boðar nýja hugsun.
Aþena er nýtt íþróttafélag sem var stofnað þann 19. júní 2019 í Reykjavík. Áhersla þessa nýja íþróttafélags er fyrst og fremst á að jafna stöðu kynjanna. Það er gert með því að setja skarpan fókus á þjálfun stúlkna. Félagið ætlar sér að verða fyrirmynd annarra hvað varðar umhverfi og aðstöðu fyrir stúlkur. Yfirlýst markmið Aþenu er að vinna að kynjasamþættingu yngri barna og mun félagið því fylgja fordæmum margra Evrópulanda þar sem stúlkur og drengir spila saman í yngri flokkum allt til fjórtán ára aldurs.
Stofnendur Aþenu hafa á undanförnum áratugum þjálfað bæði stúlkur og drengi í körfubolta innan annarra félagsliða á Íslandi. Upplifun þjálfara Aþenu, bæði sem leikmanna á öllum aldursstigum og sem þjálfara er undantekningarlaust sú, að stúlkur fá verri þjálfun, oft verri aðstöðu en drengir og hafa þar með alls ekki jafna möguleika. Iðkendur og foreldrar barna í Aþenu hafa sömu reynslu.
Innan Aþenu æfa og keppa saman bæði stúlkur og drengir. Mikil áhersla er lögð á það strax á unga aldri að líta ekki á kynin, heldur á getu og vilja til þess að bæta sig. Með þá hugsun að leiðarljósi hafa bæði kynin jöfn tækifæri því þau fá sömu þjálfun.
Leiðtogaþjálfun fyrir ungt fólk
Skapgerðar- og hugarþjálfun er sérhæfing Aþenu. Markmiðið er að félagið verði fyrirmyndarfélag sem mun hækka viðmið innan stúlkna- og kvennakörfunnar á svo áberandi hátt að önnur íþróttafélög sjái sig knúin til að fylgja í kjölfarið. Kvíði og lágt sjálfsmat eru vandamál sem margar ungar stúlkur glíma við. Tækin sem við munum nota í þjálfuninni til þess að styrkja einstaklingana okkar eru mótlætaþol gegn kvíða og depurð, markmiða- og tilfinningastjórnun, skarpari sjálfsvitund og leiðtogahæfni. Við vinnum að því að byggja iðkendurna upp og gerum til þeirra miklar kröfur og hækkum rána jafnt og þétt, bæði innan og utan körfuboltavallarins.
Jöfnum leikinn
Aþena ætlar að einbeita sér að börnum, sem að öllu jöfnu geta ekki af félagslegum ástæðum tekið þátt í hópíþróttum. Við munum búa svo í haginn að þau geti fengið afreks- og leiðtogaþjálfun, keppt og lært, óháð innkomu foreldranna. Við vinnum fyrst og fremst með börnunum sjálfum, en þjálfunin fer fram með mikilli samvinnu foreldranna. Okkur finnst mikilvægt að foreldrarnir viti hvað er í gangi og skilji hugmyndafræðina að baki þjálfuninni. Til þess að efla og bjóða sömu tækifæri börnum sem ekki geta fengið stuðning heima fyrir, munum við byggja upp stuðningskerfi innan foreldrahóps Aþenu, þar sem virkir foreldrar fá það hlutverk að hjálpa börnum sem þurfa félagslegan og/eða fjárhagslegan stuðning. Þar með tryggjum við sömu tækifæri fyrir börn sem verða útundan og þrífast ekki vel innan hópíþrótta.
Þjálfaraskóli Aþenu
Aþena hefur það markmið að reka þjálfaraskóla, þar sem sérstök áhersla verður lögð á ungar konur. Við ætlum að skila út í hreyfinguna öruggum og færum þjálfurum. Við munum sjá viljann, kraftinn og dugnaðinn blómstra og sjá konur þjálfa bæði kvenna- og karlalið á hæsta stigi í meistaradeild.
Við lítum svo á að íþróttahreyfingin þurfi á því að halda að hafa kynjasamþættingu og jöfn tækifæri að leiðaljósi í öllu starfi. Íþróttir eru vanmetinn vettvangur til þess að efla siðferði og tilfinningaþroska ungs fólks. Við erum að innræta okkar yngri iðkendum jafnréttishugsjónina í öllu okkar starfi og með því að veita fyrsta flokks afreks- og leiðtogaþjálfun förum við nýjar leiðir í barna- og unglingaþjálfun.
Það er reynsla okkar að unga fólkið sem fær slíka þjálfun skilar sér almennt sem betra forystufólk inn í samfélagið.