Sjálfboðaliðar

Bergþóra Holton Tómasdóttir (1994) Stjórnendaþjálfari

Bergþóra hefur æft körfubolta frá því að hún var smástelpa. Hún er lærður kvikmyndagerðarmaður og Íslandsmeistari með Val í körfubolta. Bergþóra hefur spilað með öllum landsliðum Íslands í körfubolta. Bergþóra kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu. Markmið Bergþóru er að verða besti þjálfari á Íslandi á næstu árum. Bergþóra er með ákveðnar hugmyndir um að stelpur eigi að vera miklu fyrirferða meiri í körfuboltasamfélaginu og vinnur hún markvisst að því að breyta staðalímynd kvenþjálfarans. Bergþóra er langvinsælasta stúlkan í þjálfara hópnum.

Brynjar Karl Sigurðsson (1973) Atvinnurekandi

Brynjar Karl ætlaði sér að verða þjálfari þegar hann var 9 ára gamall og þjálfaði sitt fyrsta lið 15 ára. Brynjar er með mikla reynslu af körfuboltaþjálfun á öllum stigum. Hann elskar samt mest að valdefla börn og unglinga. Brynjar fer sínar eigin leiðir í þjálfun og bindur ekki bagga sýna sömu hnútum og samferðamenn sínir í þeim efnum.  Brynjar ætlar að nýta vinnufriðinn í Aþenu til þess þjálfa sín eigin börn og vini þeirra og þróa og miðla þjálfunaraðferðum.

Eiríkur Ari Eiríksson (1996) Sölu- og markaðstjóri

Eiríkur er merkilegasti þjálfarinn í hópnum. Eiríkur hafði aldrei spilað körfubolta áður en hann byrjaði að þjálfa. Áhugi hans á körfuboltaþjálfun og sá árangur sem hann hefur náð á stuttum tíma er með ólíkindum svo vægt sé til orða tekið. Eiríkur var mjög frambærilegur knattspyrnumaður þegar hann var yngri og var í landsliðshópum KSÍ. Þegar Eiríkur er ekki að þjálfa krakka í körfubolta þá er hann að kenna þeim á píanó. Eiríkur er fæddur þjálfari.

Eiður Sigurðsson (1991) Glímu- og styrktarþjálfari

Eiður er margfaldur Íslandsmeistari í Brasilísku Jiu Jitsu. Eiður er glímu- og styrktarþjálfari. Hann vinnur með eldri hóp unglinga í Aþenu og hefur gert síðustu 4 árin. Margar af stelpunum sem æfa körfubolta í Aþenu hafa smitast af glímubakteríunni og mæta reglulega hjá Eiði til að styrkja sig og glíma þeim bæði til mikillar gleði og gagns.

Hallgrímur Pálmi Stefánsson (1987) Pípulagningameistari

Hallgrímur var lengi vel á leiðinni að verða besti körfuknattleiksleikmaður sem Ísland hefur alið þegar meiðsli settu strik í reikninginn og hann neyddist til að leggja skóna á hilluna aðeins 19 ára. Síðan þá er Hallgrímur orðinn meistari í pípulögnum en ætlar nú að láta draum sinn rætast og fara aftur í körfuna, núna sem þjálfari. Það hefur lengi staðið til hjá Hallgrími að láta gott af sér leiða í starfi með ungu fólki. Sjálfur var hann erfiður krakki þar til hann fór að æfa körfubolta hjá Brynjari, þegar hann var 12 ára. Ekki er ólíklegt að Hallgrímur vilji gjalda líku líkt og gefa öðrum sama tækifæri og hann fékk.

Margrét Björg Ástvaldsdóttir Félagsfræðingur, Jógakennari

Margrét er félagsfræðingur sem hefur rannsakað kynjamisrétti í íþróttum. Þegar hún heyrði af Aþenu fannst henni tilvalið að bjóða sig fram sem þjálfara og hætta að rannsaka eitthvað sem væri svo skýrt að allir sjá það og fara að gera eitthvað í því að jafna leikinn á milli kynjanna. Margrét er fótboltastelpa sem spilaði með U19 þegar hún var yngri og er að spila í Pepsi-deildinni með Fylki en hefur aldrei æft körfu. Margrét hefur lagt mikið á sig til þess að komast inn í undirstöðuatriðin í körfu til þess að geta miðlað til yngri leikmanna. Margrét er baráttukona sem er tilbúin að vaða eld og brennistein með réttlætiskennd og trú á jafnrétti að leiðarljósi.

Vésteinn Sveinsson (1987) Tölvunarfræðingur

Vésteinn lærði sitt fag þegar hann var á körfuboltaskólastyrk við University of Ashford. Eftir að Vésteinn útskrifaðist úr háskóla þjálfaði hann hjá Marshalltown Community College. Vésteinn er frá Akranesi og byrjaði spila körfubolta þar hjá Brynjari Karli þegar hann var smá gutti. Þegar Vésteinn varð 17 ára spilaði hann aftur hjá Brynjari í hinni frægu körfuboltaakademíu FSu. Vésteinn er með hæstu greindarvísitöluna af öllum þjálfurum Aþenu. Vésteinn talar spænsku, portúgölsku, dönsku og ensku eins og innfæddur. Góður á gítar en getur ekkert sungið.

Jóhanna Jakobsdóttir (1981) Líftölfræðingur

Jóhanna er doktor í líftölfræði frá Háskólanum í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Hún er lektor í líftölfræði og stundar rannsóknir á sviði lýðheilsu og erfðafræði. Tvær dætur hennar hafa æft körfubolta hjá Brynjari, önnur frá haustinu 2015 og hin frá vorinu 2019. Jóhanna hefur lengi tekið virkan þátt í starfinu og séð um mikið af skipulaginu í kringum lið dætra sinna eins og að skipuleggja fjáraflanir, æfinga- og keppnisferðir, sjá um innkaup á búningum og fleira.

Henning Arnór Úlfarsson (1981) Stærðfræðingur, verkefnastjóri Aþenu 

Henning er doktor í stærðfræði frá Brown háskólanum í Bandaríkjunum. Hann er dósent í stærðfræði stundar rannsóknir á reikniritum í fléttufræði, sem er undirgrein stærðfræði sem snýst um að telja hluti með ákveðna eiginleika. Henning keppti fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í eðlisfræði. Tvær dætur Hennings hafa æft körfubolta hjá Brynjari frá haustinu 2015. Henning hefur frá upphafi tekið virkan þátt í starfinu og hefur meðal annars reglulega boðið liðsfélögum dætra sinna í stærðfræðibúðir.

Páll Melsted (1980) Stærðfræðingur, verkefnastjóri Aþenu

Páll er doktor í stærðfræði frá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum. Hann er prófessor í tölvunarfræði og stundar rannsóknir á sviði lífupplýsinga- og erfðamengjafræði. Hann þróar hröð reiknirit sem gera það mögulegt að vinna úr miklu magni af gögnum á hagkvæman hátt. Páll keppti einnig á Ólympíuleikunum í eðlisfræði. Tvær dætur hans hafa æft körfubolta hjá Brynjari, önnur frá haustinu 2015 og hin frá vorinu 2019. Hann hefur tekið virkan þátt í starfinu kringum lið eldri dóttur sinnar og meðal annars séð um að skipuleggja æfinga- og keppnisferðir.