Tíðindi

 
 
koklkaalsefg.png

LEITIN AÐ STELPUNUM

Aþena leitar nú logandi ljósi að tveimur 12 ára stelpum (fæddar 2007) til þess að fylla upp í 7.flokk. Þar sem stelpurnar í flokknum eru ríkjandi Íslandsmeistarar, komnar langt í færni sinni og æfa með eldri stelpum er æskilegt að umsækjendur hafi íþróttabakgrunn og helst úr boltaíþróttum. Æfingar eru sem hér segir:

Mán kl.17:00, Mið kl.17:00, Fös kl.17:30, Lau kl. 14:00, Sun kl. 12:00

Nánari upplýsingar í síma 862-4714 eða tölvupóst á athena@athenabasketball.com.


20190928_144540.jpg

Fyrsti leikur aþenu

Aþena spilar sína fyrstu opinberu leiki sunnudaginn 29.september í íþróttahúsi Hauka í Hafnarfirði. Fyrsti leikurinn er gegn Stjörnunni og er í c-riðli 9.flokks kvenna og hefst hann klukkan 14:30. Leikurinn er sérstakur fyrir þær sakir að í liði Stjörnunnar eru margar stúlkur sem tvívegis urðu Íslandsmeistarar með leikmönnum Aþenu.

Á sínu fyrsta starfsári sendir Aþena fimm lið til keppni í Íslandsmót í körfubolta tímabilið 2019-2020: MB10 ára og MB11 ára drengja og  7. 8. og 9. flokk stúlkna. Aþena mun einnig senda 8 og 9 ára lið á míkróboltamót félaganna.


11 ára iðkendur UMFK/Aþenu Fá ekki að taka þátt í Íslandsmóti

Í lok sumars stofnaði Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) körfuknattleiksdeild innan félagsins og hóf samstarf við Aþenu íþróttaakademíu um körfuknattleiksþjálfun hjá félaginu. UMFK sótti um aðild að Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ) með það að markmið að gefa iðkendum sínum tækifæri á að taka þátt í Íslandsmótum á vegum sambandsins.

UMFK þjónar aðallega íbúum á Kjalarnesi og í Kjós. Fjöldi barna sem þar búa er ekki mikill og því ljóst að til að halda úti kröftugum æfingum og ná í körfuknattleikslið þurfi börn að æfa og keppa saman þvert á aldursflokka.

Til hliðsjónar af 15. grein reglugerðar KKÍ um körfuknattleiksmót þar sem segir að “Leikmaður má aldrei leika með yngri aldursflokki en honum ber. Öllum leikmönnum yngri aldursflokks er heimilt að leika hverju sinni með öllum aldursflokkum fyrir ofan sinn eigin” þá taldi UMFK að allir þeirra iðkendur fengju að sjálfsögðu tækifæri til að spreyta sig á Íslandsmótum KKÍ svo fremi að UMFK skráði aðeins lið til keppni í samræmi við aldur elsta leikmanns í liðinu.

20191011_Athena_191.jpg

Hingað til æfa aðeins tvö 11 ára börn körfuknattleik hjá UMFK/Aþenu og eitt lið í þessum aldursflokki skal skipað 4 leikmönnum ásamt allt að þremur varamönnum þá var liðið sem UMFK hugðist senda á Íslandsmót í minnibolta 11 ára skipað 2 leikmönnum á réttum aldri og 2 yngri leikmönnum ásamt 3 yngri varamönnum.

Samkvæmt vinnureglu KKÍ, sem hvergi er tilgreind í lögum né reglugerðum sambandsins og kemur einungis fram í tölvupóststilkynningu til aðildarfélaga KKÍ þar sem auglýst er að skráning á mótið sé hafin er tekið fram að ef “félög óska eftir að nota yngri iðkendur til að ná í lið þarf beiðni þar að lútandi að berast innan skráningarfrests”.

Beiðni UMFK til sambandsins um að fá að senda lið skipað 2 leikmönnum á réttum aldri, 2 yngri leikmönnum og 3 yngri varamönnum til að ná í lið var synjað á þeim forsendum, sem hvergi eru tilgreindar í lögum, reglugerðum, né upphaflegum tölvupósti sem auglýsti skráningu á mótið, að liðum hafi verið heimilað “að skrá yngri iðkendur til keppni í þeim tilfellum þar sem verið er að bæta við varamönnum, þannig að liðin séu að mestu byggð á leikmönnum á réttum aldri”.

KKÍ benti UMFK þann möguleika að senda lið sameiginlegt með öðru félagi. Eitt af markmiðum UMFK með samstarfi við Aþenu var einmitt að ná til stærri hóps fjölskyldna sem búa utan Kjalarness og þannig fjölga iðkendum á Kjalarnesi og miðar því markmiði vel. UMFK/Aþena telur best fyrir iðkendur sína að fá að keppa með sínum liðsfélögum undir stjórn sinna þjálfara enda eru iðkendur á þessum aldri farnir að læra töluverða leikfræði, eftirfylgni eftir keppni þar sem farið er yfir leikinn orðin meiri en áður, ásamt fleiru sem byggir á því að liðið sé sem mest saman sem ein heild. 

UMFK/Aþena bendir á að önnur íþróttafélög sendi allt að 4 lið til keppni í samræmi við fjölda iðkenda hjá félögunum og þannig fái allir iðkendur sem vilja tækifæri til að taka þátt jafnvel þó eitt lið megi mest vera skipað 7 leikmönnum.

Stjórn UMFK/Aþenu telur að synjun KKÍ samræmist ekki þeim lögum og reglugerðum sem sambandið hefur sett sér og óskar eftir því að sambandið endurskoði afstöðu sína fyrir 2. umferð Íslandsmóts og stuðli að þannig að jöfnum tækifærum allra til þátttöku í körfuknattleik.


 
ATHENA15.10.png

Merki AÞENU

Aþena er grísk gyðja visku og hernaðarkænsku. Hún er dóttir Seifs og Metisar, og ein af Ólympsguðunum tólf. Hún er gyðja visku, herkænsku, vefnaðar og ýmiss konar handverks. Sagan segir að við komu hennar í heiminn hafi Seifur étið Metisu rétt áður en hún átti að fæða Aþenu. Fljótlega eftir það fær Seifur mikinn höfuðverk sem varð til þess að hinir guðirnir gerðu gat á hausinn á honum, þaðan stekkur Aþena út í fullum herklæðum með miklu herópi.

Í dag var tekið í notkun nýtt merki Aþenu. Hönnunin var boðhlaup nokkurra listamanna sem hver á fætur öðrum tók merkið í næsta stig. Hönnuðirnir voru beðnir að vinna með þrjú atriði í merkinu fyrir utan nafið sjálft. Fyrst ber að nefna einkunnarorð Aþenu. “QUOD OBSTAT VIAE FIT VIA” sem þýðir á íslensku: “Þegar hindrunin í veginum verður vegurinn”. Setningin er í anda stóuspekinnar og á einkar vel við upphaf og ástæður stofnunar Aþenu.

Aþena er verndari grísku borgarinnar Aþenu og hof hennar er á Akrópolis hæð. Fylgigoð hennar er Nike. Helstu kennitákn hennar eru herklæði, skjöldur og ugla. En uglan skipar stóran sess í merki íþróttafélagsins.

Oft má finna stofnár félaga í merkjum þeirra en sjaldnar dagsetningar. En þar sem stofnun félagsins er skráð á kvenréttindadaginn og andi jafnréttisbaráttu er stór í stofnun Aþenu var við hæfi hafa dagsetninguna í merkinu.


MARGRÉT BJÖRG ER NÝR ÞJÁLFARI

Margrét er félagsfræðingur sem rannsakað hefur kynjamisrétti í íþróttum. Þegar hún heyrði af Aþenu fannst henni tilvalið að bjóða sig fram sem þjálfara og hætta að rannsaka eitthvað sem er svo skýrt að allir sjá það og fara að vinna að því að jafna leikinn á milli kynjanna. Margrét er fótboltastelpa sem spilaði með U19 þegar hún var yngri og er að spila í Pepsi-deildinni með Fylki en hefur aldrei æft körfu. Margrét hefur lagt mikið á sig til þess að komast inn í undirstöðuatriðin í körfu til þess að geta miðlað til yngri leikmanna. Margrét er baráttukona sem er tilbúin að vaða eld og brennistein með réttlætiskennd og trú á jafnrétti að leiðarljósi.

Screen Shot 2019-10-17 at 23.37.35.png